Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 1 . mál.


Sþ.

295. Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1991.

Frá 2. minni hl. fjárveitinganefndar.



    Við lokafrágang síðustu fjárlaga núverandi ríkisstjórnar stendur Alþingi frammi fyrir því einu sinni enn að afgreiða fjárlög með stórfelldum halla og augljóst að þó eru ekki öll kurl komin til grafar.
     Efnahagsforsendur frumvarps til fjárlaga byggjast á áætlun Þjóðhagsstofnunar um framvindu efnahagsmála á árinu. Sú áætlun er þó ótrygg og veruleg frávik geta orðið á veigamiklum þáttum. Óvissa ríkir um olíuverð. Þótt verð á sjávarafurðum í heild hafi stórhækkað er ekki séð hversu mikinn ábata ríkissjóður hlýtur af því. Sala á saltsíld hefur brugðist, loðnuaflinn hefur brugðist og rækjuverð hríðfallið. Einnig er útlit fyrir lakari viðskiptakjör en gengið er út frá í frumvarpinu. Vert er einnig að taka fram að hafnargjaldið nýja hlýtur að hafa áhrif til verðlagshækkana, en með því er ekki reiknað í verðlagsforsendum frumvarpsins.
     Tekjugrunnurinn er einnig valtur. Gjaldstofn virðisaukaskattsins hefur dregist saman. Allt er í lausu lofti með fyrirhugað tryggingaiðgjald og hafnargjald. Framkvæmd þeirrar skattheimtu hefur hvorki verið skipulögð eða útfærð enn, né lagaheimilda aflað, og lýsir því fremur óskhyggju en raunsæi hjá ráðamönnum að treysta því að sú tekjuöflun nái fram að ganga að fullu. Allir þessir þættir geta valdið verulegum breytingum á fjárlögum komandi árs.
     Í fjárlögum fyrir árið 1991 er stefnt að eftirfarandi markmiðum:
     Að halli ríkissjóðs haldi áfram að lækka og verði um 1% af landsframleiðslu samanborið við 1,5% í ár.
     Að lánsfjárþörf ríkissjóðs haldi áfram að lækka og verði 1,3% af landsframleiðslu í stað 1,9% í ár.
     Að lánsfjárþörf verði að fullu fjármögnuð innan lands.
     Þegar er sýnt að ekki mun takast að ná fyrsta markmiði. Hækkun á gjaldaliðum við 2. umr. er um 900 millj. kr. Stórmál sem bíða 3. umr. varða hafnamál, byggingarsjóðina, Lánasjóð íslenskra námsmanna, Tryggingastofnun ríkisins, Þjóðleikhúsið og Bessastaði. Mörg smærri mál koma að auki til afgreiðslu þá. Alls má ætla að afgreiðsla þessara þátta hækki gjaldahliðina um 2,2 milljarða kr. og hafa útgjöld ríkisins þá hækkað um rúma 3 milljarða kr. frá frumvarpinu og hallinn orðinn milli 7 og 8 milljarðar kr. Halli ríkissjóðs stefnir því í að verða um 2,2% af landsframleiðslu. Hlutfallið lækkar ekki, það hækkar, þvert ofan í markmiðin.
     Hvað varðar annað markmið, lækkun á lánsfjárþörf, þá er næsta augljóst af því sem fyrr er sagt að viðbótarlánsfjárþörf mun verða um 4 milljarðar kr. og verður því heildarlánsfjárþörfin um 1,5% af landsframleiðslu en ekki 1,3% eins og stefnt var að.
     Þriðja markmið, að fjármagna lánsfjárþörfina innan lands, kann að takast. En aukin lánsfjárþörf ríkissjóðs hlýtur að auka þenslu á fjármagnsmarkaðnum, ýta undir hækkanir á vöxtum og stofna til hækkandi verðbólgu. Þannig er staðan nú ef ekki kemur til ný tekjuöflun eða stórfelldur niðurskurður á útgjöldum.
     Við afgreiðslu þessara síðustu fjárlaga frá ríkisstjórninni hljóta menn að líta á hvaða breytingar til bóta hafi orðið í ríkisfjármálum á ferli hennar miðað við þau fyrirheit sem hún gaf. Menn horfa á það að í reynd hefur ekkert breyst síðustu þrjú árin. Stjórnvöld eru í sjálfheldu með sífellda raunaukningu ríkisútgjalda sem þau virðast vera vanmegnug að takast á við. Stórfé hefur verið varið til kerfisbreytinga, einnar af annarri, sem kalla á stóraukin umsvif og mannahald hjá ríkinu. Árlega hefur fjölgað um 300 400 starfsmenn í ríkiskerfinu. 400 störf kosta um milljarð króna. Þessi aukning hefur gengið fram án þess að stjórnvöld hafi reynt að sporna við því þótt þau stynji undir launakostnaðinum.
     Ríkisstjórnin hefur hælt sér af því að tekist hafi að halda stöðugleika í verðlagi. Augljóst er að þegar eru uppi ákveðin teikn um að svo muni ekki verða til loka næsta árs. Peningamagn í umferð fer vaxandi. Sífelldur hallarekstur ríkissjóðs veldur samkeppni um fjármagn sem orsakar að ekki hefur tekist að lækka vexti sem neinu nemur. Nú þegar krauma undir yfirborðinu kostnaðarhækkanir sem haldið hefur verið niðri með handafli en hljóta að brjótast upp á yfirborðið á næsta ári. Því eru litlar líkur til að forsendur fjárlaganna um verðbólgu fái staðist.
     Á þessu tímabili stöðugleikans hefur ríkisstjórnin ekki búið í haginn fyrir áframhaldandi stöðugleika, ekkert raunhæft aðhafst til undirbúnings þess að menn geti séð fram á vaxandi tekjur og aukinn kaupmátt launa í komandi kjarasamningum. Ekki er einsýnt að launþegar og bændur uni til langframa þeim kjörum sem þeir tóku að sér að axla við þjóðarsátt.
     Ýmislegt fleira mætti telja til sem hlífst er við að taka á, þótt ekki sé eindagi að hausti. Óleystum vanda er velt yfir til framtíðarinnar. Einna alvarlegust eru málefni byggingarsjóðanna. Byggingarsjóður ríkisins þarf til sín um hálfan milljarð króna. árlega fram yfir aldamót. Byggingarsjóður verkamanna verður með álíka fjárþörf um ófyrirséða framtíð. Þótt núverandi ríkisstjórn hafi ekki stofnað til þessa vanda bar henni að finna lausn á honum, rétt eins og hún ætlar komandi ríkisstjórnum að leysa ýmsan vanda sem hún hefur stofnað til.
     Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram taldi fjármálaráðherra það ekki vera kosningafrumvarp. Þar væru engin gylliboð. Þetta frumvarp var þó kosningafrumvarp að því leyti að þar var gengið fram hjá málum sem augljóslega varð að taka á í vinnu fjárveitinganefndar og valda stórmiklum útgjöldum, sbr. ýmis dæmi hér að framan. Þá er fjármálaráðherra sá leikur auðveldur að firra sig ábyrgð á hækkun ríkisútgjalda, en varpa henni á fjárveitinganefnd og Alþingi og það mun hann gera. Samstaðan um fjárlögin innan ríkisstjórnarinnar er svo ekki meiri en það að ráðherrar og ráðuneyti þeirra hafa komið til fjárveitinganefndar með óskalista upp á mörg hundruð milljóna króna hækkanir.
     Uppsafnaður halli á ríkisrekstri síðustu þrjú ár er um það bil 23 milljarðar kr. Viðskilnaður núverandi fjármálaráðherra verður trúlega á þann veg að hallinn frá hans fjármálastjórn nær 30 milljörðum króna þrátt fyrir öll tímamótafjárlögin og hornsteinana undir efnahagslífið.
     Þessi niðurstaða um ríkisfjármálin leggur þær kvaðir á framtíðina að leysa úr þessum málum. Stórkostlegur vandi blasir við þeim sem eftir koma. Greiða verður á næstu árum og áratugum þessa 30 milljarða kr. í viðbót við fyrri skuldir. Það verða fjáraukalög framtíðarinnar.
    Þetta er sú mynd er við blasir nú og er meginástæða þess að Kvennalistinn getur ekki staðið að samþykkt þessa frumvarps.

Alþingi, 13. des. 1990.



Málmfríður Sigurðardóttir.